Það bar til mikilla tíðinda hér á dögunum í Súðavíkurskóla, þegar Samvest söngkeppnin var haldin með ljósum og látlausri gleði í íþróttahúsinu. Samvest er undankeppni allra félagsmiðstöðva á norðanverðum vestfjörðum fyrir loka söngkeppni Samfés sem haldin er árlega í Reykjavík og er einn af hápunktum ársins í starfsemi félagsmiðstöðva landsins.
Að þessu þessu sinni kepptust tíu atriði um að verða fulltrúar vestfjarða á lokakeppninni og komu keppendur frá Þingeyri, Ísafirði, Súðavík og Hólmavík. Var það mál manna og kvenna að keppendur hafi verið óvenju sterkir að þessu sinni, atriðin vel æfð og hefði hvert og eitt þeirra sómt sér vel sem fulltrúar kjálkans á lokakeppninni.
Að lokum var það niðurstaða dómnefndar, sem skipuð var fulltrúum frá Ísafjarðarbæ, Súðavík og Hólmavík, að sigurvegarar kvöldsins yrðu tveir. Þar urðu hlutskörpust Egill Bjarni Vikse Helgason, sem söng lagið Kyrrlátt kvöld við undirleik hljómsveitarinnar The Cutaways og Gó -Gó píurnar frá Hólmavík sem sungu undurfallegan sálm sem í íslenskri þýðingu hefur titilinn Lýstu skært.
Eftir bljúgar ballöður kvöldsins og krýningu sigurvegara var gleðin rétt aðeins hálfnuð, því eftir söngkeppnina var boðið upp á stórball fyrir eldri bekkinga grunnskólanna. Á svið steig íslenska ofurstjarnan Haffi Haff og einfaldast væri að segja að hann hefði sigrað huga og hjörtu ballgesta og íbúa í næsta nágrenni. Það var því rétt um miðnæturbil sem að þreyttar og ungar gagnfræðisálir stigu út í vetrarnóttina sæl og glöð.
Það var sérstök ánægja fyrir Súðvíkinga eftir velheppnaða söngkeppni að þeirra fulltrúi, Egill Bjarni Helgason, skyldi komast áfram í lokakeppnina og sendir skólinn honum og strákunum í The Cutaways frómar óskir um gott gengi.