Matsáætlun Súðavíkurskóla 2018-2019

  1. Matsáætlun Súðavíkurskóla 2018 – 2019

 

Um Súðavíkurskóla

Súðavíkurskóli er fámennur skóli sem samanstendur af þremur skóladeildum þ.e. leik- grunn- og tónlistardeild. Skólinn er staðsettur í miðju þorpsins og því stutt til fjalls og fjöru. Umhverfið er því mikið nýtt til kennslu. Þá er áhersla á hreyfingu stór þáttur í skólastarfinu og þrisvar í viku hefjum við skólastarfið á hreyfingu í íþróttasalnum og hina tvo dagana byrjum við á söng á sal. Mötuneyti er starfrækt í skólanum þar sem öllum er boðið upp á sameiginlegan morgun- og hádegismat. Það eru 13 nemendur í leikskóladeild, 24 nemendur í grunnskóladeild og 20 nemendur í tónlistardeild. Fimm ára nemendur í leikskóladeild eru 10 kennslustundir í grunnskóladeildinni og þá í samkennslu með 1. 2. 3. og 4. bekk. Starfsmenn við skólann eru 12 í mismiklu starfshlutfalli. Þá má geta þess að mikill fjölbreytileiki er í skólanum, hvað þjóðerni varðar, en nemendur og starfsmenn eru af 9 þjóðernum.

 

 

Aðferð

 

Skólastjóri, kennarar ásamt skólasálfræðingi skólans, unnu eftir 5 ára matsáætlun, (sjá fylgiskjal 1) þar sem fyrir næsta skólaár yrðu eftirfarandi þættir teknir fyrir. Þættirnir eru: 1) Stefna skólans, kennsluhættir og uppeldisfræðileg stefna 2) Skóli án aðgreiningar, 3) Starfsfólk, líðan og þarfir og símenntun, 4) Stoðþjónusta.

 

  1. Stefna skólans, kennsluhættir og uppeldisfræðileg stefna

Skólinn aðhyllist Uppbyggingarstefnuna – Uppeldi til ábyrgðar, sem felur í sér ákveðnar samskiptaleiðir í skólanum og er helsta markmið okkar með þessari stefnu að efla vitund allra nemenda og starfsmanna í Súðavíkurskóla um eigin vinnu og að hvetja þá til að taka ábyrgð á eigin hegðun og framkomu og verða með því betri manneskjur. Þessi stefna leggur áherslu á að eina manneskjan sem við getum í raun og veru stjórnað erum við sjálf og því ekki til neins að afsaka hegðun sína og kenna öðrum um. Stefnan á að leiða nemendur til að auka þekkingu og skilning sinn á þeim möguleikum sem þeir hafa, hvetja þá til að nýta námstíma sinn vel og nýta tilboð um aðstoð og aðstöðu. Allir í skólanum hafa ákveðið og samþykkt fjögur ákveðin lífsgildi sem við ætlum að hafa að leiðarljósi og fara eftir. Þetta eru Vellíðan sem felur í sér viðurkenningu, gleði og góðan starfsanda. Virðing sem felur í sér vandvirkni, tilitssemi og traust. Framfarir sem fela í sér framvindu í námi, starfi, samskiptum og leik. Heiðarleiki sem felur í sér hreinskilni, sáttfýsi og samstöðu. Það er von okkar allra að geta fylgt þessum lífsgildum eftir til að gera skólann okkar að enn betri vinnustað.

Áhersla er lögð á að tengja námið bæði reynslu og umhverfi nemenda. Litið er á nemendur sem sjálfstæða einstaklinga sem hafa ákveðin réttindi og jafnframt skyldur við sjálfa sig og aðra og þeim sýnt traust. Stefnt er að því að þeir geti sjálfir aflað sér upplýsinga og náð umtalsverðri leikni við að leysa verkefni sín og sýnt þrautseigju í námi. Reynt er að hafa starfsdaginn samfelldan. Lögð er áhersla á að nemendur og kennarar geri húsakynni skólans vistleg en það skapar hlýlegt andrúmsloft og stuðlar að eðlilegum samskiptum þessara aðila. Bekkjarsáttmálar eru gerðir í hverri deild þar sem allir nemendur koma að þeirri vinnu og sættast á ákveðnar reglur sem fara skal eftir.

Viðmið

Allir kennarar, annað starfsfólk og nemendur starfi eftir stefnu skólans. Haldinn var rýnifundur með öllum starfsmönnum skólans þar sem farið var yfir helstu þætti Uppbyggingarstefnunar, athugað hvort þekkingu, færni eða vilja til að framfyglja stefnunni væri ábótavant.

Aðferð

Rýnifundur með öllu starfsmönnum skólans um stefnu skólans. Fundur á sal með öllum nemendum þar sem stefnan og framkvæmd hennar var rædd. Skólastjóri athugaði auk þess hvernig starf innan marka Uppbyggingastefnunnar væri sjáanleg innan veggja skólans og þá sérstaklega inni í kennslustofum.

 

 

Niðurstaða

Niðurstöður úr rýnifundum og umræðum á sal við nemendur sýndu að allir hlutaðeigandi þekkja Uppbyggingastefnuna, eru sáttir við að vinna undir henni, en tillögur komu fram um hvernig stefnunni væri betur framfylgt. Allir umsjónakennarar voru með bekkjarsáttmála sem gerður hafði verið við nemendur og voru sammála um það, að það væri lifandi plagg sem nýttist vel í vinnu með nemendum.

Úrbætur

Starfsmenn voru sammála um að stefna skólans nýtist vel sem uppeldisfræðileg stefna bæði í námi, leik og samhliða öðru. Umræða um stefnuna verður tekin fastari tökum og sett inn á kennarafundi einu sinni í mánuði eða eins oft og þurfa þykir. Umsjónarkennarar ræða stefnuna við sína nemendur við upphaf hvers skólaárs, búnir til bekkjarsáttmálar, farið yfir þarfirnar og leiðir til þess að vera betri manneskja. Allir starfsmenn skólans verði duglegri að nota orðræðu Uppbyggingarstefnunnar og setja á veggi skólans. Ákveðið að taka fyrir eina þörf eða eitthvað ákveðið gildi og vinna með það einu sinni í mánuði. Hvetja nemendur til þess að ræða þarfirnar og gildin heima fyrir, við foreldra.

 

  1. Skóli án aðgreiningar

 

Starfshættir Súðavíkurskóla teljast til sveigjanlegra starfshátta. Reynt er að aðlaga skólastarfið að þörfum nemenda eins og kostur er. Sveigjanlegt skólastarf helgast af því að þarfir nemenda eru ólíkar og reynt er að haga skólastarfinu í samræmi við þarfir og hæfileika hvers og eins. Þar sem nemendum á misjöfnum aldri og með ólíkan þroska er blandað saman í hópa, er séð til þess að hver einstaklingur fái námsefni við sitt hæfi. Það eykur sjálfstraust og sjálfstæði nemenda í námi. Kennarar eru með margar og mismunandi kennsluaðferðir til að koma til móts við hvern og einn.

 

 

 

Viðmið

Að fara yfir námskrá skólans og skoða út frá því hvort starfsmenn fylgi almennt stefnu skólans og með hvaða hætti sé verið að nota hana. Hvort kennsluhættir endurspegli þá stefnu og hvort hún nýtist á uppeldisfræðilegan hátt í námi og leik og samhliða öðru. Umræður og niðurstaða á kennarfundum.

Aðferð

Rýnifundur var haldinn með kennurum þar sem farið var yfir kennsluaðferðir, Litróf kennsluaðferðanna eftir Ingvar Sigurgeirsson var notuð sem viðmiðunartæki. Umræður á sal við nemendur um stefnu skólans og kennsluhætti og umræður á kennarafundum. Niðurstöður skráðar

Niðurstöður

Kennsluaðferðir sem verið er að nota eru: Einstaklingsnám, Samvinnunám, Leiðsagnarnám, Bein kennsla, Hálfstýrt leitarnám, Hópvinna og Þemanám. Í ljós kom að allir kennarar studdust við fleiri en eina kennsluaðferð. Þá var einnig farið yfir einstaklingsmöppur nemenda og rætt um stöðu þeirra og námsferill hvers og eins yfirfarinn. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir að gera mætti lítilsháttar breytingar voru kennarar sáttir við framfarir nemenda sinna. Skólinn er einnig í góðu samstarfi við foreldra og eru í stöðugu sambandi við þá yfir skólatímann til að samræma aðgerðir þegar þörf er á breytingum. Engin óánægja hefur komið frá foreldrum með starfsaðferðir skólans, hvorki á foreldrafundum né á almennum opnunartímum skólans.

Úrbætur

Við athugun komu ekki fram neinir augljósir gallar á því hvernig skóli án aðgreiningar er útfærður í Súðavíkurskóla. Taldi starfsfólk þó að mikilvægt væri að festa í sessi umræður við nemendur á sal, um stefnu skólans og kennsluhætti og niðurstöður skráðar, slíkur fundur yrði haldinn einu sinni á hvorri önn. Árétta mikilvægi þess að skólinn gæti jafnræðis og framfylgi því viðmiði að vera skóli án aðgreiningar með því að námskrá sé skoðuð á hverju ári.

 

 

  1. Starfsfólk, líðan og þarfir og símenntun

Skólapúlsinn var fenginn til þess að leggja fyrir starfsmannakönnun. Tilgangurinn var sá að skoða ýmsa þætti skólastarfsins, s.s. líðan og viðhorf til náms og skóla.

Starfsmannakönnuninni var skipt í sjö kafla, þar sem skoðuð voru eftirtalin atriði: 1) Allir starfsmenn - almennt, 2) Allir starfsmenn – viðhorf til skólans 3) Kennarar – kennarastarfið. 4) Kennarar – starfsumhverfi kennara. 5) Kennarar- Mat og endurgjöf. 6) Kennarar – Símenntun kennara. 7) Allir stafsmenn - var gefinn kostur á að koma með opin svör um hvað væri gott eða slæmt við skólann að þeirra mati.

Kannanirnar voru rafrænar og gerðar á skólaárinu 2018-2019. Svarhlutfall var með besta móti eða 100% meðal allra þátttakenda, en sumt átti ekki við alla þannig að stundum eru allir að svara en stundum á það ekki við nema bara kennara.

Viðmið

Að skólinn sé ekki undir landsmeðaltali.

Niðurstöður

  1. Helstu niðurstöður: Þau atriði sem voru stjörnumerkt og vert er að taka fyrir voru: A) Trú kennara á eigin getu. B) Áætlaður meðaltími í heimavinnu nemenda á viku. C) Valddreifing við ákvarðanatöku. D) Vinnuaðstæður kennara.
  1. Trú kennara á eigin getu er langt fyrir ofan landsmeðaltal og frávik merkt 2.1, það eru 7 kennarar sem svara. Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Mjög sammála – Frekar sammála- Frekar ósammála – Mjög ósammála). Spurningar sem mynda matsþátt eru: Ég á auðvelt með að ná til nemenda. Ég næ góðum árangri með nemendur í bekknum mínum. Ég get náð árangri með erfiðustu og áhugalausustu nemendurna.

Öll svörin við þessum spurningum eru Mjög sammála eða frekar sammála.

  1. Spurt er: Hve miklum tíma ætlast þú almennt til að nemendur verji í heimavinnu á viku í þeirri grein sem þú kennir? Niðurstöður voru að kennarar áætla 22,5 mínútur á viku í heimanám sem gerir -16,7 mínútur minna en landsmeðaltalið er.

Þess skal getið að foreldrar hafa farið fram á að heimanám verði með minnsta móti og því er eingöngu um lestur í þessum tímamörkum. Þá eru heimanámstímar í skólanum tvisvar sinnum í viku fyrir alla.

  1. Valddreifing við ákvörðunartöku er með 1,7 staðalfrávik ofan landsmeðaltals. Þar sem, Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Mjög sammála – Frekar sammála- Frekar ósammála – Mjög ósammála). Spurningar sem mynda matsþátt eru: 1) Starfsfólk tekur virkan þátt í umræðum og tekur ákvarðanir um flest mál er varða skólann. 2) Skólastjóri nýtir ráðleggingar annarra við ákvaðanatöku. 3) Skólastjóri dreifir valdi og stjórn með starfsfólki á lýðræðislegan hátt. 4) Ákvarðanataka á sér stað í gegnum nefndir og samræður milli kennara. 7 kennarar svara þessum fjórum spurningum með því að vera Mjög sammála og Frekar sammála.
  2. Vinnuaðstæður kennara er með 0,9 staðalfrávik fyrir ofan landsmeðaltal. Þar sem, Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Mjög sammála – Frekar sammála- Frekar ósammála – Mjög ósammála). Þrjár spurningar mynda matsþáttinn: 1) Viðeigandi búnaður og kennsluefni er aðgengilegt fyrir starfsfólk. 2) Aðstaðan í skólanum er hrein og aðlaðandi. 3) Vinnuaðstaðan í skólanum auðveldar starfsfólki samvinnu. 7 kennarar svara þessum þremur spurningum með því að vera Mjög sammála og Frekar sammála.

Úrbætur

Niðurstöður benda ekki til þess að úrbóta sé þörf að þessu sinni.

 

  1. Stoðþjónusta

 

Stoðþjónusta skólans er sinnt af sálfræðingi og námsráðgjafa eftir þörfum. Félagsfræðingi þegar þörf er á. Aðkeypt þjónusta frá Tröppu vegna talþjálfunar. Sérkennari á einhverfusviði, sem ráðinn var í vetur og kennir á mánudögum. Barnavernd í Ísafjarðarbæ. Skólahjúkrun, reglulegir tímar yfir veturinn. Sjúkraþjálfari sem kom reglulega á leikskólann. Þá var sjúkraþjálfi ráðinn til að vinna með eitt barn á leikskólanum með Downs syndrome.

Sérkennari, skólastjóri, umsjónarkennarar og aðrir kennarar sem koma að nemandanum skipuleggja sérkennsluna. Sérkennsla getur verið í stuttan tíma eða út alla skólagöngu barnsins. Einstaklingsmiðað nám er stefna skólans og eingöngu er um samkennslu árganga að ræða. Sérkennslan fer fram inn í bekk eða í sérkennslustofu eftir því hvað hentar nemandanum best hverju sinni. Ef á þarf að halda er stuðningsfulltrúi fenginn inn í bekk eða í það sem þarf hverju sinni og er það skipulagt af kennara og skólastjóra. Öll hjálpartæki eru útveguð af skólanum eins og hægt er. Sá kennari sem kennir viðkomandi nemanda ber ábyrgð á kennslunni og vinnur náið með foreldrum og skólastjóra.

 

Viðmið

Að kanna hvort stoðþjónusta skólans sé í réttum farvegi og þjóni tilgangi sínum. Námskrá er yfirfarin á hverju ári. Áhersla verði lögð á að farið verði eftir tillögum Nemendaverndarráðs skólans hverju sinni. Að foreldrar séu ánægðir með stoðþjónustuna í skólanum.

Aðferð

Lögð var fyrir könnun meðal allra foreldra nemenda í skólanum, þar sem leitað er eftir þeirra áliti á hvernig stoðþjónusta skólans er að þeirra mati. Fjórir svarmöguleikar voru í boði: vel- sæmilega -illa- á ekki við. 100% skil voru á könnuninni.

 

Niðurstaða

Helstu niðurstöður voru að 45% (9 foreldrar) telja að vel sé staðið að stoðþjónustu í skólanum. 25% (5 foreldrar) töldu sæmilega verið staðið að þjónustunni. 20% (4 foreldrar) segja að illa sé staðið að þjónustinni og 10% (2 foreldrar) segja að það eigi ekki við. Það er því ljóst að skólinn verður að bregðast betur við stoðþjónustunni. Þá er vert að geta þess að ekki var boðið upp á að foreldrar gætu skrifað álit sitt í könnuninni, sem hefði átt að gera, það voru mistök.

 

 

Úrbætur

Ákveðið hefur verið að boða til foreldrafundar þar sem stoðþjónusta skólans verður rædd og fengið frekari álit hjá foreldrum, um hvað betur mætti fara. Ítarlegri könnun lögð fyrir foreldra um málefnið, farið yfir niðurstöður og reynt að bregðast við eftir því sem við á.

 

Niðurstöður innra mats Súðavíkurskóla 2019

Þegar niðurstöður úrbótaáætlunar frá því skólaárið 2017-2018 eru skoðaðar, þá var ákveðið að umsjónarkennarar allra deilda, ætluðu að halda bekkjarfundi um þrautsegju í námi, hvaða hugmyndir nemendur hafa um þrautsegju og hvernig hægt sé að auka trú þeirra, á eigin námsgetu. Haldnir voru fundir með nemendum þar sem þeir ræddu opinskátt um málið, gerðir voru sáttmálar um hvernig þeir vildu hafa námið og hvað þeir þyrftu til, til að auka eigin getu og trú í náminu. Lögð var fyrir könnun til að meta líðan, trú á eigin getu bæði námslega og félagslega. Helstu niðurstöður voru að allir nemendur (100%) töldu sig geta gert eins vel og aðrir þannig að trú þeirra á eigin getu hefur batnað. Þá töldu (100%) allir nemendur sig tilheyra nemendahópnum í skólanum og eiga í góðu sambandi við alla kennara. Þá kemur einnig fram að allir nemendur eru einnig mjög sáttir með allar námsgreinar sem kenndar eru, þennan veturinn. (Sjá fylgiskjal 2 Mælistika 2019). Helstu niðurstöður árið 2019 sýna að skoða þarf betur hvernig foreldrar barna í skólanum meta stoðþjónustu, hvað þeim finnst ábótavant og hvernig hægt er að mæta væntingum þeirra með raunhæfum hætti. Til foreldrafundar verður boðað til að fara yfir þessi atriði.

 

Anna Lind Ragnarsdóttir skólastjóri